news

Sprotaverkefni Iðavallar

02. 04. 2019

Iðavöllur er að ljúka þriðja vetrinum í röð í Sprotaverkefni. Öll verkefnin bera yfirheitið Þar er leikur að læra – en árið 2016-2017 var undirheitið; Að koma til móts við nemendur af erlendum uppruna. Árið 2017-2018 var undirheitið; Að koma til móts við foreldra af erlendum uppruna og þennan vetur 2018-2019 er undirheitið; Að tengja tvo heima.

Markmið fyrsta verkefnisins var að styðja við íslenskunám barna af erlendum uppruna með því að efla orðaforða þeirra, tjáningu og skilning ásamt félagsþroska með tilliti til menningarlegs margbreytileika. Að börnin upplifi sig sem hluta að barnahópnum og verði á allan hátt auðveldað að eiga í fjölbreyttum tjáskiptum hvort sem er í skóla eða heima fyrir. Markmiðum var fylgt eftir með því að ígrunda dagsskipulag leikskólans, hvar mætti gera betur og hvað væri gott. Fræðsla til starfsfólks og markviss málörvun í litlum hópum fyrir öll erlend börn.

Markmið verkefnis tvö var að auka tengsl foreldra af erlendum uppruna við leikskólann, efla öryggi þeirra í samskiptum við starfsfólk og styðja við íslensku kunnáttu barna og foreldra af erlendum uppruna. Markmiðum var fylgt eftir með því að taka upp nýja móttökuáætlun og einnig var útbúin handbók leikskólans og gefin út á íslensku, ensku og pólsku. Fyrirhugað var að vinna að orðabókum í gegnum smáforritið Bitsboard, en ekki fékkst nægjanlegt fjármagn til þess að þessu sinni.

Verkefni þrjú gaf hins vegar tækifæri til þess að vinna að orðabókunum. Markmið þessa verkefnis var að efla kunnáttu og hæfni barna af erlendum uppruna í að nota málið. Verkefnið eflir samstarf milli skóla og heimilis og eykur þátttöku foreldra í skólastarfinu og auðveldar þeim að mynda tengsl inn í íslenskt samfélag. Markmiðum verður fylgt eftir með orðabókum í smáforritinu Bitsboard þar sem börnum af erlendum uppruna gefst kostur á að taka með sér bakpokaverkefni heim. Í bakpokanum verður ipad með íslenskum smáforritum t.d. Lærum og leikum með hljóðin og Orðagull, ásamt Bitsboard þar sem orðabækurnar eru staðsettar. Einnig er fyrirhugað að hafa fleira í bakpokanum t.d. bækur og brúður eða slíkt þar sem þekkt er að sumar sögurnar sem við lesum eru til á fleiri tungumálum. Reynt verður að flétta saman heimamálið og skólamálið með ipad, bókum, brúðum og fleiru.

Verkefnin eru unnin í samstarfi við MSHA. Myndirnar í orðabækurnar eru teiknaðar af Ingu Maríu Brynjarsdóttur og eru orðabækurnar unnar í samstarfi við verkefni MSHA sem nefnist Orðaleikur.

© 2016 - 2021 Karellen